sjois.jpg (27711 bytes)

Ávarp í hófi Sjóís 20 ára – 6. nóvember 2004.

Ágætu félagar, skipstjórnarmenn og aðrir góðir gestir!

Það er ánægjulegt að sjá hversu margir eiga þess kost að taka þátt í mannfagnaðinum hér í kvöld þegar þeim tímamótum er fagnað að Sjóís, Sjóstangaveiðifélag Ísfirðinga, fyllir 20 árin. Nánar tiltekið var félagið stofnað þann 7. nóvember 1984 á fundi að Hafnarstræti 12 hér á Ísafirði. Stofnfélagar voru 12 og fyrsti formaður félagsins var Úlfar Ágústsson, kaupmaður í Hamraborg. Framhaldsaðalfundur félagins var svo haldinn 9. apríl 1985 og gerðust þá átta til viðbótar stofnfélagar og þar á meðal Sigrún Baldursdóttir sem hér er stödd í kvöld. Aðaldriffjöðurinn að stofnun félagsins var fyrrnefndur Úlfar, sem á árunum 1984 og fyrr stóð fyrir Ísafjarðarhátíðunum þar sem m.a. var keppt í sjóstangaveiði með þátttöku heimamanna og gesta, s.s. frá Vestmannaeyjum og Akureyri. Sagði mér landsþekktur veiðimaður, sem að ég held að tekið hefur þátt í allflestum ef ekki öllum Sjóís-aðalmótum frá upphafi – sumir kalla hann Adda Jelló en hann heitir Arnþór Sigurðsson, að Eyjamennirnir fylltu heilu rúturnar á upphafsárunum og keyrðu að sunnan beint hingað vestur í einum rykk og þá var sungið og þá trallað alla leiðina og mér skilst að söngvatn hafi verið með í för og eigi við nögl skorið og notað óspart.

Þau tuttugu ár, sem Sjóís hefur starfað, hefur sjóstöngin sem íþrótt tekið miklum breytingum, bæði hvað varðar fjölda keppenda, betri veiðiútbúnaðar, hraðskreiðari báta og aukins afla. Ég minnist upphafsáranna hjá mér sem keppanda að á árinu 1992 þegar ég mætti á sjó með örfáar gúmmítúttur, heimasmíðað belti og hálfgerða Hagkaupsstöng og þóttist fullklár í keppnina og vera öðrum veiðimönnum fremri. Áhuginn var slíkur og keppnisskapið á dampi að ég kippti mér ekkert upp við það þótt ég slengdi þessum örfáum þorskræflum sem vildu líta við gúmmítúttum mínum um borð með því að sveifla fiskunum oft og iðurlega nærri því framan í næsta mann sem stóð ýmist mér til vinstri handar eða þeirrar hægri. Enda þekkti ég þá ekkert til veiðireglna eða þess óskrifaðs blaðs sem segir að ávallt skal gæta fyllsta kurteisis gagnvart öðrum veiðimönnum. Það var ekki fyrr en margreyndur og ágætur veiðimaður og öðlingur, Jóhann Kristinsson Sjóak, benti mér nýliðanum með kurteisi en þó ákveðni á að svona nokkuð gerir maður ekki í íþrótt sem þessari. Sljánkaðist þá í kauða og sá ég villu míns vegar.

Í öll þessi tuttugu ár hefur félagið átt því láni að fagna að geta ætíð leitað til reyndra skipstjórnarmanna sem boðið hafa fram góða og trausta báta, flutt veiðimennina á fengsæl veiðimið og skilað öllum heilum í land. Þó stundum hafi kulað dulítið úti á sjó er keppnir hafa verið haldnar, bátar bilað eða þeim seinkað eða veiðimenn lent í því óhappi að tapa veiðibúnaði í sjóinn hafa þeir smáerfiðleikar gleymst mjög fljótt er keppninni var lokið og allir sem vettlingi hafa valdið drifið sig á lokaballið þar sem dansinn hefur dunað og gleðin verið í fyrirrúmi.

Það er öllum sjóstangaveiðimönnum ætíð tilhlökkunarefni að vori, að hitta gömlu góðu félaganna og skipstjórnarmennina, sýna og sjá nýjustu trixin og græjurnar, gantast og segja gamansögur í glöðum hópi þar sem aldursmunur er ekki til.

Sjóís hefur eitt fárra félaga átt því láni að fagna að hafa átt fulltrúa sinn í öllum aðalmótum í sjóstöng um allt land í ein sjö til átta ár og er það einstæður árangur í ljósi þess að félagið er eitt hið fámennasta. Liðið ár var hið fengsælasta í sögu félagsins er í mótinu veiddust nær 30 tonn og tæp 729 kg. á meðalstöngina. Þá voru slegin fimm Íslandsmet sem eru fyrir utan hæstu meðalstöngina aflahæsti karl og kona og aflahæstu sveitir karla og kvenna. Ennfremur á árinu náðum félagar í Sjóís góðum árangri á landsvísu er okkur tókst að ná 5. og 9. sætinu í Íslandsmeistara-keppni kvenna og 7. sætinu í karlaflokki. Bestum árangri í sögu félagsins náðist á árinu 2000 þegar Sigríður Kjartansdóttir varð Íslandsmeistari kvenna og hefur félagi í Sjóís aldrei áður eða eftir það náð þeim frábæra árangri.

Nú bíðum við vorsins með óþreyju en á næsta sumri nánar tiltekið þann 1. og 2. júlí munum við halda stórmót hér fyrir vestan og vænta má metþátttöku og vonandi þokkalegs veðurs og afla.

Góðir gestir! Hér í kvöld erum við hér saman komin til þess til að fagna að Sjóís hefur náð þeim áfanga að verða 20 ára. Skemmtum okkur vel hér í kvöld, njótið matarins og ég segi skál.

Þórir Sveinsson, form. Sjóís.