Ágæti lesandi
    

     Ný heimasíða Sjóstangaveiðifélags Ísfirðinga, Sjóís, hefur nú verið opnuð. Finna má þar ýmsar upplýsingar um sjóstangaveiðiíþróttina, lesa fréttir af keppnum sumarsins, fylgjast með félagsstarfinu og almennt að fræðast um sjóstangaveiði á Íslandi.
     Sjóstangaveiðifélag Ísfirðinga var stofnað 7. nóvember 1984. Stofnfélagar voru 12 og var fyrsti formaður og aðaldriffjöðurinn að stofnun félagsins Úlfar Ágústsson, fyrrverandi kaupmaður í versluninni Hamraborg, Ísafirði. Framhaldsaðalfundur félagins var haldinn 9. apríl 1985 og gerðust þá átta til viðbótar stofnfélagar. Félagar í Sjóís í dag eru 29 þar af 12 konur.
     Á Íslandi er keppt til Íslandsmeistara í sjóstangaveiði undir merkjum átta félaga í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akranesi, Ísafirði, Ólafsvík, Siglufirði og Akureyri. Sjávarútvegsráðuneytið veitir félögunum átta leyfi á grundvelli laga um stjórn fiskveiða til að halda 2ja daga aðalmót þar sem allir áhugasamir geta tekið þátt og til eins dags innanfélagsmóts sem ætlað er fyrir æfingar og þjálfunar nýliða. Ár hvert taka að jafnaði um 400 manns þátt í aðalmótunum átta jafnt konur sem karlar 16 ára og eldri og hefur þátttaka aukist á síðustu fimm árum þótt á árinu 2005 hafi eilítið dregið úr þátttöku miðað við árin þar á undan.
     Á sjóstangaveiðimóti er keppt í tvo daga á litlum bátum með tveimur til sex keppendum um borð í sjö til átta klst. á sjó hvorn daginn. Keppt er með sterkbyggðum veiðistöngum og sjóveiðihjólum og eru þrír krókar á slóðanum. Veitt er yfirleitt á 20 til 40 föðmum og dregur hver maður sína fiska með eigin handafli. Keppnin sem slík fellst í að draga fleiri fiska en næsti maður um borð, fá fleiri tegundir fiska og sem stærstan fiskinn, sem gæti verið metfiskur yfir mótið. Keppt er í fjögurra manna sveitum karla og kvenna og í einstaklingskeppni karla og kvenna. Afli hvers veiðimanns er nákvæmlega vigtaður og fiskar taldir og stig gefin. Undirmálsfiskum er sleppt lifandi í sjóinn enda telur sá fiskur ekki með í stigagjöf í keppninni.
     Félagar í Sjóstangaveiðifélagi Ísfirðinga hafa ná allgóðum árangri í keppnum á liðnum árum. Bestum árangri náði Sigríður Kjartansdóttir þegar hún varð Íslandsmeistari kvenna á árinu 2000. Ennfremur hafa ýmiss Íslandsmet verið sett í mótum félagsins frá Bolungarvík og má þar nefna að á aðalmótinu á árinu 2004 voru sett fjögur Íslandsmet fyrir aflahæstu sveitir karla og kvenna og aflahæstu einstaklinga karla og kvenna.
     Félagið heldur úti félagsstarfi á vetrum, m.a. hittast félagar reglulega til að hnýta sjóflugur og ræða veiði komandi sumars. Nýjir félagar eru velkomnir og aðstoðar stjórnin og gefur góð ráð varðandi veiðibúnað og veiðitækni. Hafðu endilega samband við einhvern í stjórninni ef í þér blundar veiðimaður sem kynnast vill þeirri íþrótt að draga fisk úr sjó með veiðistöng.         

Ísafirði, 29. júní 2006
Þórir Sveinsson - formaður Sjóís