Ísafirði, 18. júní 2006 Fréttatilkynning

Aðalmót Sjóstangaveiðifélags Ísfirðinga 30. júní og 1. júlí 2006

Aðalmót Sjóstangaveiðifélags Ísfirðinga verður haldið föstudaginn 30. júní og laugardaginn 1. júlí og er mótið hið fimmta í röð átta móta sem haldin eru víðs vegar á landinu og er liður í Íslandsmeistaramótinu í sjóstangaveiði.
Auk verðlauna fyrir sigur í sveita- og einstaklingskeppni verða veitt verðlaun fyrir stærstu fiska einstakra tegunda, fyrir stærsta fisk mótsins, til aflahæsta heimamannsins, fyrir flestar veiddar tegundir, hæstu meðalþyngd og til þriggja fengsælustu skipstjórana. Búast má við að veiða þorsk, ufsa, ýsu, karfa, steinbít, sandkola, lúðu og marhnút svo nokkrar tegundir fiska séu nefndar.
Sú nýjung verður að sérstakur bátur er ætlaður fyrir þá veiðimenn sem leggja vilja áherslu á að veiða sem flestar tegundir fiska fremur en sem mesta magn afla.

Gert er ráð fyrir að sjóstangaveiðifólk alls staðar að frá öllum landshlutum fjölmenni í mótið auk þess að margir heimamenn taka þátt í keppninni.

Róið verður frá Bolungarvík og látið úr höfn kl. 6.00 báða dagana. Fyrri daginn er veitt til kl. 14.00 en til kl. 13.00 seinni daginn. Mótssetning verður fimmtudaginn 29. júní kl. 20.30 í samkomuhúsinu Víkurbæ í Bolungarvík.
Þátttökugjald er 14.000 kr. og er innifalið veislumáltíð og miði á dansleik. Skráning er hjá Þóri Sveinssyni í síma 456 3298 eða 896 3157 og Sigríði Jóhannsdóttur í síma 897 6782.

Í tilefni af mótinu verður opnuð ný heimasíða félagsins, sjois.is, þar sem finna má ýmsar upplýsingar um félagið og sjóstangaveiðiíþróttina.

Stjórn Sjóís