Skýrsla stjórnar SJÓÍS fyrir starfsárið 2006

Ágætu félagar!
Aðalfundur fyrir starfsárið 2005 var haldinn 5. maí 2006 og voru eftirtaldir kosnir í stjórn:

Stjórn og nefndir.

Í stjórn:                                    Þórir Sveinsson, formaður

                                                Hávarður Bernharðsson, ritari

                                                Sigríður Jóhannsdóttir, gjaldkeri.

Í varastjórn:                            Oddur Bjarnason og Gunnar Þorgilsson.

Skoðunarmenn reikninga:    Jósefína Gísladóttir og Úlfar Ágústsson.

Starf stjórnar og félagsstarfið.

Alls voru haldnir tveir bókaðir fundir í stjórn auk nokkurra óbókaðra funda mótsstjórnar á síðasta starfsári.

Starf stjórnarinnar var með hefðbundnu sniði og voru meginverkefnin að skipuleggja aðalmót félagsins svo og innanfélagsmótið.

Sjóís tekur virkan þátt í starfsemi Landssamtaka sjóstangaveiðifélaga og hafa fulltrúar félagsins ætíð sótt aðalfundi landssambandsins en aðalfundur fyrir árið 2006 var haldinn 24. mars sl. í Reykjavík og sóttu hann formaður Sjóís og ritari Sjóís.

Fluguhnýtingardagur átti að halda í gær en vegna anna formanns varð að fresta deginum og er það aðalfundar að ákveða nýja dagsetningu.

Félagatala í Sjóís var 30 félagar við síðustu skráningu í byrjun apríl 2007.

Mót 2006 og þátttaka Sjóís-félaga.

Aðalmótin átta á vegum Sjól, Landssambands sjóstangaveiðimanna, voru frá Patreksfirði, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akranesi, Bolungarvík, Ólafsvík, Siglufirði og Dalvík. Alls tóku 156 einstaklingar, 28 konur og 128 karlar, þátt í mótum Sjól sumarið 2006. Árið áður voru einstaklingarnir 181, 34 konur og 147 karlar. Róið var á 91 báti og voru keppendur alls 325 sem þýðir að hver einstaklingur hefur tekið þátt í tæplega tveimur mótum. Rúm 150 tonn veiddust og voru taldir 84.944 fiskar borið saman við 162 tonn og 88.244 fiskar árið áður. Þessar tölur bera með sér að dregið hefur úr aðsókn að sjóstangaveiðimótunum og verður að leita allt að 10 árum aftur í tímann til að sjá sambærilegan fjölda veiðimanna taka þátt þótt aflinn á meðalstöngina hefur aldrei verið hærri sem og í fyrra. Þessi þróun er visst áhyggjuefni allra sjóstangaveiðimanna.

Öllum afla var landað óslægðum og er þetta fjórða árið sem sá háttur er hafður á og hefur almennt notið vinsælda hjá keppendum.

Félagar í Sjóís kepptu á öllum mótum Sjól og var fjöldi og afli eftirfarandi:

keppnisstaður             félag           dagsetning      fj. frá Sjóís    afli kg.          fiskar

Patreksfjörður                Sjór                19.-20. maí             1               737,00             372

Vestmannaeyjar            Sjóve                3.-4. júní                5            2.055,68             860

Neskaupstaður              Sjónes             9.-10. júní              3            2.346,88          1.076

Akranes                          Sjóskip          23.-24. júní              3               892,73             519

Bolungarvík                    Sjóís              30. júní-1. júlí           8            3.031,71          1.869

Ólafsvík                          Sjósnæ         21.-22. júlí                1                 88,50             127

Siglufjörður                     Sjósigl            4.-5. ágúst              1               619,70             395

Dalvík                             Sjóak            18.-19. ágúst            2               890,21             569

Alls                                                                                      24          10.662,41          5.687

24 félagar Sjóís veiddu alls tæpa 5.700 fiska sem vógu tæp 10,7 tonn borið saman við 20 stangir 2005 sem veiddu rúma 4.200 fiska og sem vógu tæp 7,7 tonn. Félagið greiddi keppnisgjöld fyrir félaga sína á öll mótin utan heimamótsins auk þess að ferðastyrkir voru veittir í flestum tilfellum. Sú nýjung var á liðnu ári að Sjósnæ bauð uppá veiði með tegundarbáti og tók einn félagi í Sjóís þátt í mótinu og keppninni á tegundarbátnum. Sjóís útvegaði félögum sínum sökkur, veiðigirni og öngla án endurgjalds eins og áður. Laugardaginn fyrir páska 7. apríl sl. steyptu nokkrir félagar sökkur í bílskúrnum hjá Þórarinni eða Þóa í Bolungarvík og eru sökkurnar af ýmsum stærðum og gerðum.

Aðalmót Sjóstangaveiðifélags Ísfirðinga 2006.

Aðalmót Sjóstangaveiðifélags Ísfirðinga var haldið föstudaginn 30. júní og  laugardaginn 1. júlí 2006 með 26 keppendum, 6 konum og 20 körlum, frá sjö félögum. Mótið var eitt af átta mótum á vegum Sjól, Landssamtaka sjóstangaveiðifélaga, þar sem keppt er til Íslandsmeistaratignar í karla- og kvennaflokki og var mótið það fimmta í röðinni á árinu. Róið var frá Bolungarvík á níu bátum aðallega á veiðislóð undir Stigahlíðinni, Ritnum, Aðalvíkinni og Vébjarnarnúpi. Fyrri daginn var veitt frá kl. 6.00 til kl. 14.00 en seinni daginn frá kl. 6.00 til kl. 13.00. Alls veiddust 8.863 fiskar sem vógu 14.523,25 kg. eða 558,59 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Níu tegundir veiddust; þorskur, ufsi, ýsa, karfi, steinbítur, sandkoli, lúða, lýsa og keila.

Eitt Sjóís tegundarmet var slegið í mótinu. Keila sem vóg 7,800 kg. og veiðimaður Ólafur Bjarnason, Sjósigl.

Blönduð sveit frá Sjóak og Sjósigl sigraði í sveitarkeppni kvenna með 2.240 kg. Önnur varð sveit frá Sjóís með 1.075 kg. Í karlaflokki sigraði sveit frá Sjór með 2.442 kg. Í öðru sæti varð sveit frá Sjóak með 1.915 kg. og í þriðja sæti blönduð sveit frá Sjór, Sjóve og Sjóskip með 1.699 kg.

Í einstaklingskeppni kvenna sigraði Svala Júlía Ólafsdóttir, Sjósigl með 856 kg. Í öðru sæti varð Anna S. Jóhannesdóttir, Sjóak með 723 kg. og í þriðja sæti Sigfríð Ó. Valdimarsdóttir, Sjóak  með 661 kg.

Í einstaklingskeppni karla sigraði Guðbjartur G. Gissurarson, Sjór með 995 kg. Í öðru sæti varð Guðmundur Svavarsson, Sjór með 926 kg. og í þriðja sæti Jóhann R. Kjartansson, Sjór með 882 kg.

Aflahæsti heimamaðurinn varð Hávarður Bernharðsson með 688 kg.

Auk verðlauna fyrir sigur í sveita- og einstaklingskeppni voru veitt verðlaun fyrir stærstu fiska einstakra tegunda, fyrir stærsta fisk mótsins, til aflahæsta heimamannsins, fyrir flestar veiddar tegundir og hæstu meðalþyngd. Aukaverðlaun voru veitt fyrir að slá út gildandi Sjóís-met.

Aflahæsti skipstjórinn varð Sigurður Hálfdánarson og áhöfn hans á Snjólfi með 2.539 kg. eða 846 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Í öðru sæti varð Bæring Gunnarsson og áhöfn hans á Gunnari Leós með 2.531 kg. eða 844 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Í þriðja sæti varð Guðmundur Jakobsson og áhöfn hans á Neista með 2.273 kg. eða 758 kg. að meðaltali á veiðistöngina.

Í tengslum við aðalmót félagsins var opnuð ný heimasíða félagsins á slóðinni www.sjois.is.

Innanfélagsmót félagsins var haldið laugardaginn 26. ágúst með þátttöku 7 veiðimanna á tveimur bátum. Róið var frá Bolungarvík kl. 10.00 og komið að landi kl. 16.00. Veitt var í ágætis veðri og næstum sléttum sjó undir Stigahlíðinni og Grænuhlíðinni. Alls veiddust 517 kg. að mestu þorskur og ufsi og fáeinar ýsur. Aflahæsti veiðimaðurinn var Þórir Sveinsson með 117 kg. en næsti veiðimaður Sigurgeir S Þórarinsson var með 116 kg. Aflahæsti skipstjórinn var Sigurgeir S Þórarinsson á bátnum Sigga Bjartar með 408 kg. eða 102 kg. á meðalstöngina. Um borð auk Sigurgeirs voru veiðimennirnir Þórir Sveinsson, Sigríður Jóhannesdóttir og Kjartan.

Niðurlag.

Lægð fylgir ætíð í kjölfar hæðar fyrr eða síðar en þannig má að nokkru lýsa starfi félagsins á liðnu starfsári en árið áður hélt félagið uppá 20 ára afmæli sitt með glæsilegu afmælismóti.

Á árinu var gagnagrunnur landssambandsins betrum bættur og má þar skoða aflatölur í gegnum heimasíðu Sjól á slóðinni www.sjol.is. Hægt er að skoða heildarstöðuna jafnóðum og nýjar upplýsingar eru slegnar inn og birtast úrslit viðkomandi móts kl. 23.00 að kvöldi síðari keppnisdaginn.

Hér að framan lýsti ég nokkrum áhyggjum að aðsókn að sjóstangaveiðimótum fer dvínandi um land allt. Á aðalfundi landssambandsins í fyrra reyndu fulltrúar Sjóís og Sjósnæ að fá samþykkta þá nýjung að viðurkenna keppni á tegundarbátum til jafns við keppni á öðrum bátum. Sameiginleg tillaga fulltrúa félaganna tveggja var felld naumlega eða með einungis einu atkvæði. Á aðalfundi landssambandsins núna í mars sl. tóku Sjóís-fulltrúarnir þá meðvituðu ákvörðun að minnast ekkert á tegundabáta eða keppni á þeim minnugur þess að von væri á að skipt yrði um fulltrúa í stjórn landssambandsins sem gekk og eftir. Kannski verður lag á næsta ári að blása til sóknar á ný því ljóst er að eitthvað verður að gera til að snúa þeirri óheillaþróun við að færri og færri veiðimenn treysta sér á sjó vegna of mikils afla, mikillar vinnu og þá að sjálfsögðu dregur úr veiðigleðinni, sem áður einkenndi keppnir í sjóstöng.

Þrátt fyrir þessi orð mín hvet ég alla félagsmenn Sjóís að sækja sem flest mót á hinum ýmsum stöðum á landinu á komandi sumri svo og að taka vikan þátt í störfum félagsins.

Að lokum vil ég þakka meðstjórnendum mínum og öðrum þeim sem starfað hafa fyrir félagið gott samstarf á liðnu starfsári.

21. apríl 2007

f.h. stjórnar Sjóís, Þórir Sveinsson, formaður.