Skýrsla stjórnar SJÓÍS fyrir starfsárið 2007

Ágætu félagar!

Aðalfundur fyrir starfsárið 2006 var haldinn 21. apríl 2007 og voru eftirtaldir kosnir í stjórn:

Stjórn og nefndir.

Í stjórn:                                      Þórir Sveinsson, formaður
                                                  Hávarður Bernharðsson, ritari
                                                  Sigríður Jóhannsdóttir, gjaldkeri.
Í varastjórn:                              Oddur Bjarnason og Gunnar Þorgilsson.
Skoðunarmenn reikninga:     Jósefína Gísladóttir og Úlfar Ágústsson.
 

Starf stjórnar og félagsstarfið.
Alls voru haldnir fjórir bókaðir fundir í stjórn auk nokkurra óbókaðra funda mótsstjórnar á síðasta starfsári.
Starf stjórnarinnar var með hefðbundnu sniði og voru meginverkefnin að skipuleggja aðalmót félagsins svo og innanfélagsmótið.
Sjóís tekur virkan þátt í starfsemi Landssamtaka sjóstangaveiðifélaga og hafa fulltrúar félagsins ætíð sótt aðalfundi landssambandsins en aðalfundur fyrir árið 2007 var haldinn 8. mars sl. á Akranesi og sóttu hann formaður Sjóís og Sigríður Kjartansdóttir.
Félagatala í Sjóís var 29 félagar við skráningu í byrjun maí 2008.

Mót 2007 og þátttaka Sjóís-félaga.
Aðalmótin átta á vegum Sjól, Landssambands sjóstangaveiðimanna, voru frá Patreksfirði, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akranesi, Bolungarvík, Ólafsvík, Siglufirði og Dalvík. Sumarið 2007 var róið á 102 bátum og voru keppendur alls 369. Rúm 126 tonn veiddust og voru taldir 77.170 fiskar. Árið áður var róið á 91 báti og voru keppendur 325, 150 tonn veiddurst og 84.944 fiskar.
Þrátt fyrir fleiri veiðistangir veiddust færri fiskar og minni afli. Þetta getur skýrst af að sumarið 2007 var oft slæmt veður a.m.k. annan veiðidaginn og dregur það nær oftast úr veiði.
Öllum afla var landað óslægðum og er þetta fimmta árið sem sú regla er í gildi.
 

Félagar í Sjóís kepptu á fimm mótum Sjól og var fjöldi og afli eftirfarandi:
keppnisstaður         félag    dagsetning    fj. frá Sjóís    afli kg.    fiskar
Patreksfjörður             Sjór       18.-19. maí              1              349,00      264
Vestmannaeyjar         Sjóve     26.-27. maí              4          1.042,40      580
Akranes                       Sjóskip 15.-16. júní               2             282,72      238
Bolungarvík                 Sjóís        6. -7. júlí                  3             916,85      512
Siglufjörður                  Sjósigl     3.-4. ágúst             2             733,20      454
Alls                                                                             12          3.524,17   2.048

Sex félagar Sjóís eða 12 stangir tóku þátt í mótunum og veiddu alls rúma 2.000 fiska sem vógu rúm 3,5 tonn borið saman við 24 stangir 2006 sem veiddu rúma 5.700 fiska og sem vógu tæp 10,7 tonn.
Félagið greiddi keppnisgjöld fyrir félaga sína á öll mótin utan heimamótsins auk þess að ferðastyrkir voru veittir í flestum tilfellum. Annað árið í röð bauð Sjósnæ uppá veiði með tegundarbáti og tók einn félagi í Sjóís þátt í mótinu og keppninni á tegundarbátnum. Afli veiðimannanna á tegundarmótinu er ekki inni í ofangreindum tölum. Sjóís útvegaði félögum sínum sökkur, veiðigirni og öngla án endurgjalds eins
og áður. Sökkur voru steyptar í bílskúrnum hjá Þórarinni eða Þóa í Bolungarvík og eru sökkurnar af ýmsum stærðum og gerðum.

Ég vil vekja athygli fundarmanna á gagnagrunni landssambandsins á slóðinni www.sjol.is þar sem skoða má aflatölur. Þar kemur fram heildarstaðan í viðkomandi móti jafnóðum og nýjar upplýsingar eru slegnar inn og birtast úrslit viðkomandi móts kl. 23.00 að kvöldi síðari keppnisdaginn. Ennfremur vil ég benda á slóðina www.sjostongin.is en þar bitast einnig fréttir og fróðleikur um sjóstangaveiðimótin.

Aðalmót Sjóstangaveiðifélags Ísfirðinga 2007.
Aðalmót Sjóís var haldið föstudaginn 6. júlí og laugardaginn 7. júlí 2007 með 27 keppendum, 6 konum og 21 karli, frá 7 félögum. Mótið er eitt af átta mótum á vegum Sjól, Landssamtaka sjóstangaveiðifélaga, þar sem keppt er til Íslandsmeistaratignar í karla- og kvennaflokki og var mótið það fimmta í röðinni á árinu. Róið var frá Bolungarvík á átta bátum aðallega á veiðislóð undir Stigahlíðinni, Deildinni, Ritnum og Aðalvíkinni. Fyrri daginn var veitt frá kl. 6.00 til kl. 14.00 en seinni daginn frá kl. 6.00 til kl. 13.00. Alls veiddust 5.324 fiskar sem vógu 9.139,05 kg. eða 351,50 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Níu tegundir veiddust; þorskur, ufsi, ýsa, karfi, steinbítur, sandkoli, rauðspretta, lýsa og marhnútur.
Tvö Sjóís tegundarmet voru slegin í mótinu. Ýsa sem vóg 4,200 kg. veiðimaður Erlendur Guðjónsson, Sjór og marhnútur 0,543 kg. veiðimaður Guðrún Jóhannesdóttir, Sjóak.

Blönduð sveit frá Sjóak og Sjósigl sigraði í sveitarkeppni kvenna með 1.243 kg. Önnur varð sveit frá Sjóak með 878 kg. Í karlaflokki sigraði sveit frá Sjór með 1.509 kg. Í öðru sæti varð sveit frá Sjósigl með 1.319 kg. og í þriðja sæti blönduð sveit frá Sjóak og Sjóskip með 1.053 kg.

Í einstaklingskeppni kvenna sigraði Guðrún Jóhannesdóttir, Sjóak með 602 kg. Í öðru sæti varð Sigríður Rögnvaldsdóttir, Sjósigl með 369 kg. og í þriðja sæti Sigfríð Ó. Valdimarsdóttir, Sjóak með 324 kg.

Í einstaklingskeppni karla sigraði Einar Kristinsson, Sjór með 592 kg. Í öðru sæti varð Þórarinn Magnússon, Sjósigl með 566 kg. og í þriðja sæti Árni Halldórsson, Sjóak með 517 kg.

Aflahæsti heimamaðurinn varð Þórir Sveinsson með 383 kg.

Auk verðlauna fyrir sigur í sveita- og einstaklingskeppni voru veitt verðlaun fyrir stærstu fiska einstakra tegunda, fyrir stærsta fisk mótsins, til aflahæsta heimamannsins, fyrir flestar veiddar tegundir og hæstu meðalþyngd. Aukaverðlaun voru veitt fyrir að slá út gildandi Sjóís-met.

Aflahæsti skipstjórinn varð Sigurður Hjartarson og áhöfn hans á Sjófugli með 1.761 kg. eða 587 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Í öðru sæti varð Guðmundur Einarsson og áhöfn hans á Ásdísi með 1.189 kg. eða 396 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Í þriðja sæti varð Sigurður Hálfdánarson og áhöfn hans á Snjólfi með 1.065 kg. eða 332 kg. að meðaltali á veiðistöngina.

Keppt var eftir “Reglum um sjóstangaveiði”, sem settar voru á aðalfundi Sjól í Reykjavík 1. apríl 2006. Mótsstig, bátastig og bónusstig voru reiknuð út samkvæmt stigagjöf Sjól fyrir karla annars vegar og fyrir konur hins vegar. Lágmarkslengd þorsks var 45 cm. og ufsa 50 cm. en engar lágmarkslengdir giltu
fyrir aðrar tegundir fiska. Ítarleg mótaskrá með öllum helstu upplýsingum um mótið var afhent keppendum á mótssetningu fimmtudaginn 5. júlí. Metaskrá yfir stærstu fiska í mótum Sjól, Landssambands sjóstangaveiðifélaga, frá árinu 1991 til 1997 var birt í mótaskránni.

Auk aðstoðarmanna, sem voru á mörgum bátanna, til að hjálpa keppendum að taka fiska af krókum, greiða úr flækjum og blóðga fiskinn, var trúnaðarmaður á hverjum báti til að veita keppendum leiðbeiningar, raða niður á veiðistaði um borð, útdeila nesti, útfylla aflaskýrslur, sjá um skiptingar á miðjum veiðitímanum og að tilkynna um lok veiðitímans báða dagana ásamt að fylgjast almennt með að allt færi rétt fram. Dómnefnd skipuð fulltrúum sjö félaga starfaði og barst engin kæra til nefndarinnar. Bryggjustjóri var tengiliður á milli keppenda, báta og starfsfólks við mótið í landi. Aflinn var brúttóvigtaður áður en hann fór í hús en vigtað var á einum stað undir stjórn vigtunarstjóra.

Mótið heppnaðist í alla staði hið besta. Á föstudaginn bauð félagið uppá kjötsúpuna góðu og á laugardaginn fengu keppendur hressingu er í land var komið.

Mótssetningin á fimmtudaginn 5. júlí, tölur föstudagsins 6. júlí og lokahófið 7. júlí var haldið í veitingarhúsinu vaXson.is í Bolungarvík en dansleikur fór fram í Víkurbæ þar sem hljómsveitin Eurobandið lék fyrir dansi.

Innanfélagsmót 2007.
Ekki tókst að halda innanfélagsmót félagsins á árinu 2007. Mótið hafði verið sett á dagskrá í júní en því var frestað vegna anna félaga í Sjóís og var áætlað að halda það þess í stað í september. Vegna óhagsstæðs veðurs allan septembermánuð varð að fella mótið niður.

Niðurlag.

Á þessum aðalfundi er Sjóís að ljúka sínu 22 starfsári frá því að félagið var formlega stofnað 7. nóvember 1984. Áður hafði félagið starfað óformlega í nokkur ár og þá í tengslum við siglingadaga sem haldnir voru héðan frá Ísafirði. Á þessum 22 árum hefur auðvitað skiptst á skin og skúrir í félagsstarfinu og má lýsa starfinu nú í lægð ef miðað er við fjölda félaga sem tóku þátt í mótum á vegum landssambandsins sumarið 2007. Ekki eru það fjárhagserfiðleikar sem eru að sliga félagið heldur vantar okkur nýja félaga sem viljugir eru að sækja mót til að keppa fyrir hönd félagsins. Því hvet ég alla félagsmenn Sjóís að sækja sem flest mót á hinum ýmsum stöðum á landinu á komandi sumri svo og að taka vikan þátt í störfum félagsins.
Ég vil benda fundarmönnum á heimasíðu félagsins www.sjois.is en þar eru fréttir, myndir og upplýsingar um starf félagsins. Að lokum vil ég þakka meðstjórnendum mínum og öðrum þeim sem starfað hafa fyrir félagið gott samstarf á liðnu starfsári.

27. september 2008
f.h. stjórnar Sjóís, Þórir Sveinsson, formaður.